Hornstrandir eru paradís náttúruunnenda og landið sveipað ævintýraljóma í huga ferðamanna. Hornstrandafriðland nær yfir nyrsta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða. Byggð lagðist af fyrir u.þ.b. hálfri öld og víða er að finna minjar um horfna búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða. Hvarvetna blasir fortíðin við og gamlar frásagnir koma upp í hugann nánast við hvert fótmál.

Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og inn í þau ganga firðir, víkur og dalir. Land er mótað af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. Gróðurfar er einstakt Víða er fallega gróið land í víkum og fjörðum og á síðustu áratugum hefur gróður aðlagast aðstæðum á svæðinu, stuttum og björtum sumrum og snjóþungum vetrum, og er furðu gróskumikill. Þá hefur landið lengi haft frið fyrir ágangi manna og búfjár.

Fuglalíf er auðugt á svæðinu enda fæðuskilyrði góð í hafinu og enginn hörgull á hentugum varpstöðvum. Á sumrin er mest um fugla sem halda til á sjó og eingöngu setjast upp til að verpa. Meðal fuglabyggða eru tvö af stærstu fuglabjörgum landsins í Hælavík og Hornvík. Á Hornströndum má einnig hvarvetna rekast á refi enda hafa þeir nóg að bíta og brenna. Í friðlandinu virðist þeim ekki standa mikil ógn af mönnum og eru reyndar orðnir talsvert mannvanir sumir hverjir.

Himnaríki göngugarpsins

Hornstrandafriðland hefur sérstöðu að því leyti að það er ekki í vegasambandi við umheiminn og eingöngu fært þangað sjóleiðina eða á tveimur jafnfljótum. Um svæðið liggur fjöldi gönguleiða við allra hæfi. Reglubundnum ferðum á svæðið er haldið uppi á sumrin. Á sumrin er einnig rekin gisting á nokkrum stöðum í friðlandinu. Samfara aukinni umferð hafa verið settar reglur um umgengni í Hornstrandafriðlandi sem ferðafólki ber að kynna sér.

Nánari upplýsingar um Hornstrandafriðlandið er að finna hér: https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/vestfirdir/hornstrandir/